Ferill 677. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1011  —  677. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um einkarekið dvalar- og hjúkrunarheimili á Vestfjörðum.


Flm.: Guðrún Sigríður Ágústsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Hildur Sverrisdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að koma því til leiðar að Sjúkratryggingar Íslands bjóði út rekstur dvalar- og hjúkrunarheimilis á Vestfjörðum.

Greinargerð.

    Markmið tillögu þessarar er að bæta öldrunarþjónustu á Vestfjörðum, auka aðgengi að slíkri þjónustu og draga úr kostnaði á hvern einstakling.
    Hjúkrunarrými í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða voru í febrúar 2024 alls 70. Meðalbiðtími eftir hjúkrunarrými í umdæminu árið 2023, samkvæmt gögnum embættis landlæknis, var 158,41 dagur. Frá árinu 2019 hefur meðalbiðtími eftir hjúkrunarrými á Vestfjörðum verið 233,57 dagar.
    Nauðsynlegt er að þjónusta við aldraða um land allt sé heildstæð og taki mið af þörfum þeirra til að geta búið sem lengst heima. Í því skyni þarf að vera fyrir hendi öflug stuðningsþjónusta, heilsugæsla, félagsþjónusta, heilsuefling, forvarnir o.fl. sem teljast nauðsynlegir liðir í að styðja við sjálfstæða búsetu og fresta þörf fyrir flutningi á hjúkrunarheimili eins og hægt er. Samhliða þessu er þó eigi að síður nauðsynlegt að halda áfram að fjölga hjúkrunarrýmum í öllum landshlutum í ljósi fyrirsjáanlegrar fjölgunar aldraðra á næstu árum. Huga þarf sérstaklega að þjónustu við aldraða á landsbyggðinni, þar sem einstaklingar eiga oft erfiðara með að sækja sér þjónustu og sinna heilsu sinni og því hætta á að ekki verði komið í veg fyrir ótímabær veikindi meðal þessa hóps í nógu miklum mæli.
    Samkvæmt tillögu þessari er heilbrigðisráðherra falið að beita sér fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands bjóði út rekstur dvalar- og hjúkrunarheimilis á Vestfjörðum. Mælst er til þess að staðsetning umrædds úrræðis verði valin að undangenginni þarfagreiningu. Leiða má líkur að því að ólíkir valmöguleikar hvað varðar rekstrarform hjúkrunarheimila hafi í för með sér að auðveldara verði að ráða starfsfólk á landsbyggðinni í fjölbreytt og spennandi starfsumhverfi.
    Með nýju dvalar- og hjúkrunarheimili á Vestfjörðum skal stefnt að því að stytta biðlista eftir hjúkrunarplássum, efla dagdvalarúrræði og auka frekar möguleika á stuttinnlagningu einstaklinga á svæðinu í því skyni að fólk geti búið lengur heima hjá sér. Þannig verði tryggt eftir bestu getu að það fólk sem í hlut á lifi innihaldsríku lífi og geti tekið þátt í samfélaginu, sama hvort það þarf á sólarhringsþjónustu að halda eða ekki.